Saturday, December 30, 2006

Blogg til að blogga eitthvað

Vesalings ég hef verið eilítið lasin undanfarið. Ég ákvað með sjálfri mér að gleyma ekki uppruna mínum og fá kvef og hálsbólgu eins og heima hjá mér. Veikindi þessi hafa resúlterað í enn meiri leti en ella, og göngurnar gífurlegu sem við ætluðum að takast á við fyrir brottför okkar hafa skipst út fyrir sjónvarpsgláp og svefn fram eftir degi. Við erum þó alltént búin að leigja bíl frá og með örðum janúar og ætlum þá að drífa okkur í smá rúnt um eyjuna.

Svo erum við búin að eyða endalausum tíma í að hugsa um hvað við gætum hugsanlega tekið okkur fyrir hendur um áramótin en eigum erfitt með að komast að niðurstöðu. Endar líklegast með strandarpartýi.

Það var áhugavert um jólin að á miðnætti byrjuðu eyjaskeggjar að skjóta upp flugeldum sem óðir væru. Það var indælt. Það er enn verið að selja flugelda þannig að ég býst við að það sama taki við um áramótin. Hvílíkt og annað eins.

Ég er nú að setja inn myndir ykkur til yndisauka. Kíkið á þær vinir mínir kærir.

Tuesday, December 26, 2006

HALLO!

Jaeja gott folk.
Eg nenni ekki ad tja mig um jolin thvi nu thegar hef eg gert of mikid af thvi.
Ver hofum thad alltent indaelt og sunnudagkveldinu eyddum ver med skiptinemavesalingum ad heimili voru. Thar var haldin veigamikil veisla og var Gulli i eldhusinu i 8 tima ad sja um ketid og mondlugrautinn og allt hitt sem hann eldadi, en eg bjo til salat og lagdi a bord. Thetta er verkaskipting ad minu skapi.
Alltent. Nu er bokasafnid lokad thannig ad vid erum litid sem ekkert a netinu.
Forum ad snorkla um daginn og litill fiskur beit mig i hendina. Thad var indaelt.
Nu er eg i afmaelisveislu uppi a studentagordum.
Bless.

Monday, December 18, 2006

Ligga ligga lái!

Ég á líka miða fram og til baka til Madagaskar, ekki þið, ligga ligga lái!

Ferðaplanið svo gott sem komið: Ferjan til Madagaskar 8. janúar, tvær nætur á leiðinni þangað. Höngum þar í tvo mánuði, gott að gefa sér góðan tíma í þetta stóra og fjölbreytta land. Kíkjum máske til smáeyjarinnar Mayotte ef við finnum ódýrt far þangað. Komum aftur hingað með ferjunni 9. mars.

Svo stefnum við á að eyða tveimur vikum á Indlandshafseyjunum Máritíus og Rodriguez áður en við höldum heim til hinnar köldu Evrópu.

Meginland Afríku bíður betri tíma. Maður þarf víst að hugsa skynsamlega af og til. Ekki væri nú gaman að koma heim stórskuldugur, eða hvað?

Í dag er HEITT. Gífurlega. En það er samt indælt. Við erum búin að vera að stússast út um allan bæ og svei mér þá ef Saint-Denis er ekki að verða fegurri í augum mínum.

Við héldum eitt stykki teiti heima hjá okkur á fimmtudagskveldið og vorum í feiknastuði til kl 7 um morguninn. Það aftraði okkur þó ekki frá því að rífa oss upp klukkan 7 á laugardagsmorguninn og skella okkur suður til Saint-Pierre þar sem við fórum á markað og fjárfestum í dýrindis ávöxtum. Letchi, ástríðualdini og mangói sem við nærðumst á niður við sjó. Ég er nú skaðbrunnin eftir alla þessa útiveru.

Sjóðheit kveðja frá sveittum Katli.

Thursday, December 14, 2006

Æfintýr úr hversdagsleikanum

Í nótt komum við seint heim eftir teiti á stúdentagörðunum. Gulli hóf eldunarmennsku en ég hélt til salernis. Ekki brá þá betur við en svo að ég var vör við hreyfingu við fætur mér og brá mér mjög. Rak ég upp skerandi gól slíkt sem ei hefur áður heyrst úr mínum barka. Er ég leit niður brá mér enn meir í brún því þar var mætt slanga nokkur. Hingað til höfum við einungis borið augum eðlur og kakkalakka í híbýlum vorum og eigi hafði ég áður séð slíkt skriðdýr nema lokað inni í búri þannig að ég gólaði enn á ný. Alltaf kem ég sjálfri mér á óvart. Gulli kom þjótandi, og slangan liðaðist fram og undir sófa. Hún var svo sem ekki stór, þetta grey. Ekki lengri en 30 cm og bara nokkuð krúttleg eftir að maður var búinn að jafna sig eftir gólin. Stuttu seinna kom hún aftur fram en skaust hún þá inn í herbergi til okkar og leist okkur ekki á blikuna. Við eyddum langri stund í að koma slöngunni út og tókst það að lokum. Hún komst óslösuð út í frelsið.

Alltaf er nú gaman að lenda í æfintýrum.

Monday, December 11, 2006

Letidýrð

Hæ hæ!

Allt er svo ofurrólegt og indælt núna. Ég er greinilega loksins farin ad ná hæfileikum Gulla í að njóta letinnar. Við förum aldrei framúr fyrr en eftir hádegi og erum þá barasta í einhverju letidútli fram eftir degi. Við erum reyndar eilítið aktívari á kvöldin og göngum þá oftar en ekki alla leið niður í bæ, sem er um klukkutíma labb. Þar má kíkja í kvikmyndahús, billjarð eður tónleika, og borða dýrindis kebab og kúluís. Já, það er víst um að gera að leyfa sér þetta einu sinni á æfinni, sei sei já.

Nú er ég of löt til að tjá mig meir.

Ketill

Tuesday, December 05, 2006

Kate Bush

Um daginn vaknaði ég árla morguns við það að mér heyrðist ruslabíllinn standa fyrir utan hjá okkur. Mundi ég þá eftir því svefndrukkin að það var rusladagur og að ég hafði gleymt að setja ruslatunnuna út fyrir hliðið. Velti ég því fyrir mér um stund hvort ég nennti að standa í því, en rann þá á mig svefn og dreymdi mig það sem hér fer á eftir:

Ég fór á fætur til að fara út með tunnuna. Fyrir utan húsið beið Kate Bush mín í allri sinni dýrð og fegurð. Hún rúllaði til mín ruslatunnuni á listrænan máta og fyrr en varði dönsuðum við saman listrænan dans sem fólst í því að rúlla tunnunni á milli okkar.

Þetta var hinn indælasti draumur. Ég komst ekki að því fyrr en um kvöldið að ég hafði ruglast á dögum og að ekki væri von á ruslabílnum fyrr en morguninn eftir. Hvílík einskær heppni að þessi misskilningur varð sem leiddi til þess að Kate Bush dansaði við mig í draumi.