Monday, March 19, 2007

Sunnudagur

Á hvurjum sunnudegi eiga sér stað útitónleikar við ströndina í St-Leu, sem er einn af hinum fjölmörgu bæjum við vesturströndina. Þar leika hin ýmsu bönd hina hefðbundnu Maloya tónlist við dans og drykkju viðstaddra.

Jean-Marie er reuniónskur rastaman. Ekki það að hann sé rastatrúar svo ég viti til. Hann er bara rastaman í útliti. Þrjátíu og átta vetra gamall hefur hann fés og fas manns á þrítugsaldri, þýðan róm og heillandi bros. Hann veður þar af leiðandi í ungu kvenfólki, en vill engum illt og er í mikilli sálarkreppu um árin sem líða og hina sönnu ást sem aldrei kemur. Hann er algjör gerpalingur.

Alltént. Jean-Marie hefur löngum boðið okkur Gulla á þessa St-Leu tónleika. Ófáum sunnudögum höfum vér eytt í fleti veltandi því fyrir oss hvort halda skuli til St-Leu, vitandi það að nóttinni myndum vér þurfa að eyða undir beru lofti og koma rotin heim. Ástand okkar hefur undantekningarlaust verið á þann veginn að við höfum á endanum "misst af rútunni".

Á síðastliðinn þriðjudag lofaði Guðlaugur Jean-Marie því hátíðlega að við myndum sannarlega drattast með honum til St-Leu næstkomandi sunnudag. "Hrmpf" hugsaði ég í gær. "Hrmpf, ég nenni því ekki". En ekki skal svíkja góða menn, þannig að við enduðum loks í rútunni og á þessum víðsfrægu tónleikum.

Þeir voru indælir tónleikarnir. Mikil fjölskyldustemmning. Lítil gerpaleg börn dönsuðu og hoppuðu við sviðið, indælt fólk dansaði sér til yndisauka. Hundar leituðu sér að kétbitum til að japla á. Já, það var ljúft.

Við ákváðum svo að húkka far heim. Einhvurra hluta vegna gjörðum við það í "hollum" (orð sem ég fyrirlít). Með þremur mismunandi bílum komumst við Gulli loks til Port, næstu borgar við St Denis okkar. Sérstaklega var síðasti bíllinn athyglisverður, en hann óku systur sem voru að koma frá dánarbeði föður síns og á leiðinni að tilkynna fjölskyldunni um lát hans.

Alltént. Er til Port var komið var klukkan farin að nálgast 23, og enginn hafði áhuga á að taka upp í bílinn sinn eitthvað skuggalegt fólk. Það endaði með því að við bjuggum um okkur í háu grasi í skjóli einhvurra vesælla hríslna við þjóðveginn og reyndum að sofa til morguns.

Við vorum étin lifandi af moskítóflugum en sváfum alltént betur en á horfðist og tókum fyrstu rútu heim kl 5 um morguninn.

Þannig var nú sagan sú.

4 Comments:

Blogger Híalín said...

Ekki leiðist ykkur skemmtilegar og óvæntar uppákomur,
ekki mér heldur,
njótið þess meðan þið getið,
farið varlega og knús í bæinn..........

19.3.07  
Anonymous Anonymous said...

ævintýrin ykkar eru snilld....njótið endilega alveg til enda:) hlakka til að fara að hitta þinn skemmtilega haus!!!
kv,
valdís

19.3.07  
Anonymous Anonymous said...

Hljomar undursamlega, nema fyrir utan fjarans moskitoflugurnar, vitanlega.

20.3.07  
Anonymous Anonymous said...

Næs. Njótið. Bæ.

23.3.07  

Post a Comment

<< Home